Actavis

Félagsfælni

Leiðbeiningar fyrir sjúklinga og aðstandendur

Öll finnum við fyrir kvíða af og til og jafnvel daglega. Þessi kennd er náskyld óttakennd og við venjulegar aðstæður náum við fljótt tökum á kvíðanum og getum bægt honum frá. Hins vegar eru til ýmsar tegundir af kvíða sem láta ekki að stjórn og eru því á óeðlilegu eða jafnvel sjúklegu stigi.

Fælni er ein tegund sjúklegs kvíða sem getur valdið langvinnri vanlíðan og truflað félagslega getu verulega. Þá myndast órökrænn og sterkur kvíði og ótti gagnvart ákveðnum hlut, atburði eða aðstæðum.

Þetta veldur ekki einungis andlegri vanlíðan heldur einnig breytingum á hegðun þar sem sá sjúki forðast ákveðnar aðstæður, þ.e. fælni hefur myndast.

Fælni er flokkuð eftir kvíðavaldi. Þannig er fælni gagnvart ýmsum dýrum vel þekkt, s.s. ótti við hunda eða kóngulær. Innilokunarkennd getur verið á því stigi að um sjúklega fælni sé að ræða, t.d. ótti við að lokast inni í lyftu. Flughræðsla er líka nátengt fyrirbæri. Fleiri dæmi um fælni eru sjúkleg lofthræðsla og víðáttufælni en þá á viðkomandi erfitt með að vera á bersvæði eða langt frá byggð. Ýmsar aðrar aðstæður, s.s. að vera einn í bíl, geta fyrir suma verið mjög erfiðar. Algengt er að fólk þjáist af fleiri en einni tegund fælni samtímis.

 

  • go back