Actavis

Kvíði

Leiðbeiningar fyrir sjúklinga og aðstandendur

Kvíði og ótti eru hluti eðlilegs tilfinningalífs líkt og gleði eða reiði. Megintilgangur með einkennum þessum er að vekja athygli á hugsanlegum hættum og búa einstaklinginn, bæði andlega og líkamlega, undir að bregðast við þeim.

Fyrr á tímum, þegar maðurinn bjó við frumstæð skilyrði, fólst slíkur undir búningur aðallega í því að gera hann hæfari til átaka, t.d. í stríði eða við að verjast hættulegum dýrum. Viðbrögðin voru m.a. fólgin í því að blóðrás í vöðvum örvaðist en minnkaði í innyflum og húð. Vöðvar urðu spenntir, ekki síst í útlimum, maðurinn varð sterkari og skjótari í hreyfingum og athyglin skerptist.

Nú á tímum er glímt við allt önnur verkefni, svo sem aðlögun að síbreytilegu samfélagi, fjölskyldulífi, samkeppni í starfi, o.s.frv. Þrátt fyrir þetta eru andleg og líkamleg viðbrögð við eðlilegum kvíða, sterkum jafnt sem vægum, nánast óbreytt.

Óeðlilegur og sjúklegur kvíði eða ótti hafa hins vegar engan tilgang, en eru afleiðing andlegrar eða líkamlegrar röskunar. Eðlilegur, óeðlilegur og sjúklegur kvíði eða ótti eru óþægilegar tilfinningar og leiða oft til mikils sársauka. Þess vegna kvíða margir fyrir eða óttast fátt meira en kvíðann.

Með kvíða er hér átt við þau einkenni, bæði andleg og líkamleg, sem fylgja honum. Með ótta er hér átt við geig eða hræðslu við eitthvað sem stundum er óljóst.

Hefti þessu er ætlað að auka þekkingu og skilning fólks á kvíða og ótta. Auðveldara er að glíma við það sem maður kann betur skil á og það sama á við til að geta aðstoðað þá sem haldnir eru þessum einkennum.

  • go back